Fjölgað verður í slökkviliðinu á Akureyrarflugvelli í dag og liðsauki landamæravarða af Keflavíkurflugvelli verður sendur þangað til að mæta þar stór aukinni alþjóðaflugumferð, eftir að Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöllum var lokað undir morgun vegna hættu á eldfjallaösku í lofti.
Á Akureyri lenti vél frá Alicante með 137 farþega á fimmta tímanum í morgun og fara farþegarrnir voru fluttir suður með rútubílum. Tvær erlendar sjúkraflutningavélar lentu þar fyrir stundu til að taka eldsneyti á ferðum sínum yfir hafið, og íslensk sjúkraflutningavél, sem náði inn á Reykjavíkruflugvöll seint í nótt með sjúkling frá Grænlandi, er líka lent á Akureyri.
Þar er líka þota frá Icelandair, sem ráðgert er að haldi utan með farþega í dag.
Síðasta vél sem lenti í Keflavík í morgun var Icelandair vél frá Sevilla. Hún lenti rétt upp úr klukkan fimm. Rétt áður höfðu fimm Evrópuvélar, sem áttu að fara upp úr klukkan sjö, lagt af stað frá vellinum.
Fjórar Ameríkuvélar, sem áttu að lenda í Keflavík um sex leitið, héldu áfram til Glasgow og eru Íslandsfarþegar úr þeim væntanlegir með vél þaðan til Akureyrar síðdegis. Ekki liggur fyrir hversu margar Evrópuvélanna munu lenda þar síðdegis.