Innlent

Aðeins brot hefur verið birt

Mynd af Julian Assange, stofnanda Wikileaks, á vefsíðunni sem birtir leyniskjöl.
nordicphotos/AFP
Mynd af Julian Assange, stofnanda Wikileaks, á vefsíðunni sem birtir leyniskjöl. nordicphotos/AFP
Á vefsíðunni Wikileaks hafa til þessa einungis verið birt 837 þeirra 251.287 leyniskjala úr bandarísku utanríkisþjónustunni, sem boðuð hefur verið birting á.

Fyrstu skjölin voru birt 28. nóvember síðastliðinn, en nokkur erlend dagblöð sem hafa skjölin öll í fórum sínum, þar á meðal Guardian í Bretlandi, New York Times í Bandaríkjunum og Der Spiegel í Þýskalandi, hafa með umfjöllun sinni ráðið nokkuð ferðinni um það hvenær og í hvaða röð þau birtast.

Skjölin frá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi eru samtals 290 frá tímabilinu 2005 til 2010. Fimm þessara skjala eru merkt leyndarmál, 84 eru merkt trúnaðarmál en hin eru óflokkuð, þótt ekki séu þau ætluð til opinberrar birtingar.

Fyrsta skjalið er dagsett 20. desember 2005, en þar er að finna yfirlit yfir ástand hryðjuverkamála á Íslandi, sem er framlag sendiráðsins hér á landi til árlegrar skýrslu bandarískra stjórnvalda um ástand hryðjuverkamála í öllum löndum jarðar.

Síðasta skjalið er dagsett 24. febrúar 2010, en þar er rætt um upplýsingar sem bandaríska sendiráðið hefur gefið íslenskum stjórnvöldum um írönsk skipafélög.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×