Innlent

Ímynd Bandaríkjanna talin í hættu

Íslensk kona varð þar fyrir óskemmtilegri reynslu í desember 2007. nordicphotos/afp
Íslensk kona varð þar fyrir óskemmtilegri reynslu í desember 2007. nordicphotos/afp
Í skýrslum bandaríska sendiráðsins kemur fram að Carol van Voorst sendiherra hafi haft nóg að gera eftir að íslensk kona varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að vera handtekin við komu sína til New York í desember 2007.

Konan var látin dúsa heila nótt í eins konar fangageymslu á flugvellinum og síðan send heim daginn eftir vegna þess að hún var ekki með rétta vegabréfsáritun. Hún var flutt fram og til baka í hand- og fótjárnum, og var málið tekið upp hér á landi bæði í fjölmiðlum og af stjórnvöldum, sem heimtuðu skýringar.

Van Voorst sendiherra tekur málið greinilega alvarlega, en ekki endilega vegna þess hvað gerðist heldur vegna þess að málið er áberandi í fréttum á Íslandi og skaðar ímynd Bandaríkjanna meðal Íslendinga.

„Við deilum því mati hennar að þetta atvik án tillits til þess hvað gerðist sé alvarlegt áfall fyrir ímynd Bandaríkjanna á Íslandi," skrifar van Voorst. „Það er mikilvægt að við komum þessari frétt af forsíðunum með því að útlista nánar hvað gerðist við handtökuna og hafa aftur samband við íslensk stjórnvöld eins fljótt og hægt er."

Þann 19. desember er skýrt frá því að Stewart Baker, aðstoðarráðherra í heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna, hafi skrifað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur bréf, þar sem fullyrt er að farið hafi verið vandlega yfir atburðina. Baker segist í því bréfi harma það sem gerðist og lofar því að vinnubrögð verði endurskoðuð.

Van Voorst sendiherra segir síðan að við konuna sjálfa hafi verið rætt í síma, þar sem hún segist ánægð með að bandaríska heimavarnaráðuneytið skuli ætla að endurskoða vinnubrögð sín með hliðsjón af þeirri reynslu, sem hún lenti í. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×