Innlent

Gosið að breytast í hraungos

Talið er líklegt að gosið sé að breytast í hraungos.
Talið er líklegt að gosið sé að breytast í hraungos. MYND/Vilhelm

Gosmökkurinn yfir Eyjafjallajökli er talsvert lægri en hann hefur verið að undanförnu, sem talið er vita á að farið sé að draga úr öskugosinu og að gosið sé að verða hraungos. Gosvirkni jókst i gærkvköldi, dalaði aðeins í nótt en óx aftur í morgun.

Mökkurinn er lágur næst gosinu, líklega vegna sterkrar vindáttar, en hækkar svo töluvert þegar fjær dregur. Frá Vestmannaeyjum séð bælist mökkurinn í fyrstu niður á jökulinn og rennur fram af honum eins og skafrenningur annarsvegar, en hinsvegar stígur ljós mökkur upp.

Samkvæmt uppplýsingum flugmanna ná hæstu bólstrarnir þó ekki nema upp undir 20 þúsund fet, en þeir fóru vel yfir 30 þúsund fetin framan af gosinu. Flugmenn hafa líka séð gríðarstórar hraunslettur þeytast upp, en hraun er ekki farið að renna niður hlíðar svo vitað sé.

Ekkert hlaup varð í Markarfljóti í nótt og búið er að gera við veginn við brúnna til bráðabirgða. Almennri umferð hefur þó ekki verið hleypt á vegna mikils öskufalls undir Eyjafjöllum, þar sem skyggni er afleitt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×