Skoðun

Einföld lausn

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Fréttablaðið sagði í gær frá svartri skýrslu Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða víða um land. Mörg líða þau fyrir sívaxandi átroðning ferðamanna og slæma umgengni. Víða er gæzla og eftirlit, þjónusta og gerð stíga og girðinga til að vernda náttúruminjarnar mjög af skornum skammti.

Umhverfisstofnun telur að grípa verði til tafarlausra aðgerða til að hindra meiri skemmdir á níu svæðum. Efst á lista sinn setur stofnunin Gullfoss og Geysi, Teigarhorn og friðlandið að Fjallabaki. Þá koma Reykjanesfólkvangur, Grábrókargígar og Hveravellir og loks Surtarbrandsgil, Helgustaðanáma og Dyrhólaey. Þessar niðurstöður koma ekki nokkurn skapaðan hlut á óvart. Það hefur legið fyrir um árabil að ýmsar fallegustu náttúruperlur landsins liggja undir skemmdum vegna ágangs ferðamanna. Ferðamönnunum hefur fjölgað um tugi þúsunda árlega, en litlir sem engir peningar hafa verið settir í að gera friðlýstum svæðum til góða. Því er spáð að eftir tíu ár komi milljón ferðamanna hingað til lands árlega. Tæplega 70% ferðamanna sem hingað koma heimsækja Gullfoss og Geysi. Hvernig ætlum við að taka á móti 700.000 manns á því viðkvæma svæði?

Lausnin á þessum vanda hefur sömuleiðis legið í augum uppi í mörg ár. Hún er að taka gjald af ferðamönnum sem skoða vinsælar náttúruperlur og nota tekjurnar til að bæta eftirlit, aðstöðu og þjónustu. Þetta gera allar sæmilega þróaðar þjóðir og allir sæmilega þróaðir ferðamenn borga slíkan aðgangseyri með glöðu geði, enda skilja þeir að það kostar peninga að veita aðgang að friðlýstum svæðum og umgangast þau þannig að þau liggi ekki undir skemmdum.

Einhverra hluta vegna hefur gjaldtaka af þessu tagi verið hálfgert tabú hér á landi og stjórnmálamenn hafa aldrei þorað að taka um hana ákvörðun. Ferðaþjónustan hefur beitt sér gegn gjaldtökunni af undarlegri skammsýni. Það liggur í augum uppi að ef náttúruperlur Íslands verða átroðningi og sóðaskap að bráð, skaðar það hagsmuni ferðaþjónustunnar til frambúðar.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir í Fréttablaðinu í gær að skapa verði tekjustofn til að sinna friðlýstum svæðum betur. Hún segist þar horfa fyrst og fremst til komugjalda, sem lögð verði á ferðamenn sem komi inn í landið. Það er hins vegar ekki mjög sanngjörn gjaldtaka. Margir ferðamenn sem hingað koma hafa engan áhuga á Gullfossi, Geysi og hinum náttúruperlunum og halda sig kannski bara á djamminu í 101 Reykjavík. Af hverju ættu þeir að borga fyrir náttúruunnendurna?

Því svarar sjálfsagt einhver að sums staðar sé auðvelt að taka aðgangseyri, en annars staðar flókið. Til er einföld lausn á því vandamáli; að taka gjald þar sem það er auðvelt og sleppa því þar sem það er erfitt en láta tekjurnar renna til þeirra staða þar sem þörfin er mest.

Það er kominn tími til að menn hætti að mikla þetta mál fyrir sér og fari einföldu, augljósu leiðina.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×