Innlent

Mikið öskufall frá Núpi og að Vík í Mýrdal

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er ófært undir Eyjafjöllum vegna skyggnis en við Núp er öskuveggur og sést ekki á milli stika á ákveðnum kafla.
Mynd: Vilhelm.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er ófært undir Eyjafjöllum vegna skyggnis en við Núp er öskuveggur og sést ekki á milli stika á ákveðnum kafla. Mynd: Vilhelm.
Mikið öskufall er frá Núpi undir Eyjafjöllum og að Vík. Líkur eru á að öskufall færist vestar og nái hugsanlega til Vestmannaeyja.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er ófært undir Eyjafjöllum vegna skyggnis en við Núp er öskuveggur og sést ekki á milli stika á ákveðnum kafla. Gosmökkurinn yfir jöklinum er mjög hár og sést víða að. Í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli er starfrækt upplýsingamiðstöð fyrir almenning vegna eldgsossins.

Lögreglan á Hvolsvelli vill beina þeim upplýsingum til vegfarenda að þjóðvegur 1 er lokaður við Hvolsvöll og að austanverðu er lokað við Skóga. Fljótshlíðarvegur (nr. 261) er lokaður austan við Smáratún. Vegna möguleika á að gripið verði til skyndirýminga er þeim tilmælum beint til ferðamanna að virða þessar lokanir og vera alls ekki á ferð innan við þær.

Eyjafjallajökull og hlíðar hans utan jökuls eru bannsvæði og enn er í gildi bannsvæði um 1 km í kringum eldri eldstöðina á Fimmvörðuhálsi. Öll umferð á þessu svæði er bönnuð bæði gangandi og akandi ferðamönnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×