Fótbolti

Higuain klár en þrír meiddir hjá Real

Eiríkur Stefán Ásgeirssno skrifar
Gonzalo Higuain fagnar marki í leik með Real Madrid.
Gonzalo Higuain fagnar marki í leik með Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Argentínumaðurinn Gonzalo Higuain verður aftur orðinn klár í slaginn þegar að Real Madrid mætir Tottenham í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu í næstu viku.

Higuain hefur verið frá síðan í nóvember en hann þurfti að gangast undir aðgerð fyrr á tímabilinu. Í fyrstu var talið að hann yrði frá til loka tímabilsins en endurhæfing hans hefur gengið vonum framar.

„Bjartsýnustu spár gerðu ekki ráð fyrir því að hann gæti byrjað aftur svo fljótt,“ sagði Jose Mourinho, stjóri liðsins, við spænska fjölmiðla. „Við erum afar ánægðir með þessar fregnir.“

Hins vegar hafa borist slæmar fréttir af þeim Cristiano Ronaldo, Karim Benzema og Marcelo en líklegt er að þeir missi allir af leiknum gegn Tottenham.

„Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið geta þeir fyrst spilað aftur þegar við mætum Athletic Bilbao þann 9. apríl,“ sagði Mourinho.

Real mætir Sporting Gijon síðar í dag og segir Mourinho að liðið hafi ekki efni á því að tapa leiknum - annars sé baráttunni um spænska meistaratitilinn lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×