Fótbolti

Barcelona hefur ekki tapað leik í vetur með Puyol í liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerard Pique er ekki sami leikmaðu þegar hann hefur ekki Carles Puyol sér við hlið.
Gerard Pique er ekki sami leikmaðu þegar hann hefur ekki Carles Puyol sér við hlið. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carles Puyol, fyrirliði Barcelona, er kannski mikilvægari fyrir Barcelona-liðið en flestir gera sér grein fyrir. Það er líklega engin tilviljun að allir fjórir tapleikir Barca á þessu tímabili hafa litið dagsins ljós þegar fyrirliðinn var fjarverandi.

Carles Puyol var ekki með í bikarúrslitaleiknum á móti Real Madrid á miðvikudagskvöldið þar sem Cristiano Ronaldo skoraði eina mark leiksins í framlengingu. Hann meiddist í deildarleik liðanna fjórum dögum áður og Pep Guardiola ákvað að hvíla hann í bikarúrslitaleiknum.

Menn eru flestir sammála um það að Gerard Pique sé ekki sami maður án Puyol sér við hlið og eftir að Eric Abidal veiktist hafa miðjumennirnir Sergio Busquets og Javier Mascherano þurft að leysa þessa stöðu. Það vantar því allan stöðugleika í vörn Barcelona án Puyol og hún hefur verið að gefa færi á sér þegar fyrirliðinn er utan vallar.

Carles Puyol hefur alls leikið 23 leiki á tímabilinu, 16 í deildinni, 5 í Meistaradeildinni og 2 í bikarnum. Barcelona hefur náð í 46 af 48 mögulegum stigum í deildinni með hann innanborðs, unnið 3 og gert 2 jafntefli í Meistaradeildinni með hann á vellinum og unnið 1 og gert 1 jafntefli í þeim tveimur bikarleikjum sem hann spilaði.

Barcelona hefur aðeins tapað fjórum leikjum á þessu tímabili í þeim öllum var Carles Puyol fjarverandi. Þegar þeir töpuðu 0-2 á móti Hercules í deildinni 11. september þá var Puyol meiddur á kálfa. Hann var frá vegna hnémeiðsla í 1-3 tapi á móti Real Betis í spænska bikarnum 19. janúar og sömu meiðsli héldu honum frá í 1-2 tapi á móti Arsenal í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar 16. febrúar. Fjórða tapið kom síðan í bikarúrslitaleiknum í fyrrakvöld.

Það er því kannski ekkert skrýtið að stuðningsmenn Barcelona bíði nú og voni að Carles Puyol verði orðinn góður fyrir fyrri leikinn á móti Real Madrid í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar. Sá leikur fer fram á Santiago Bernabeu á miðvikudaginn kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×