Fótbolti

Real Madrid ásakar Sergio Busquets um kynþáttaníð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Busquets og Jose Mourinho ræða málin í fyrri leiknum.
Sergio Busquets og Jose Mourinho ræða málin í fyrri leiknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Orðastríð Real Madrid og Barcelona er enn í fullum gangi þótt að það sé að flestra mati orðið ljóst að Barcelona sé komið áfram í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir 2-0 sigur í fyrri leiknum í Madrid. Liðin mætast í seinni leiknum á Camp Nou í kvöld.

José Mourinho, þjálfari Real Madrid, mætti ekki á blaðamannafund í gær en lét þess í stað aðstoðarmann sinn, Aitor Karanka, svara spurningum blaðamanna. Karanka gerði reyndar gott betur en það því hann kallaði enn á ný eftir refsingu frá UEFA gagnvart spænska landsliðsmanninum Sergio Busquets sem Madridar-menn ásaka um kynþáttaníð.

Karanka rökstuddi mál sitt með því að bjóða upp á myndband af því þegar Sergio Busquets kallar Brasilíumanninn Marcelo apa í fyrri leiknum.

„Það verður leikmaður að spila í kvöld sem varð vís að kynþáttarníði gagnvart öðrum leikmanni á sama tíma og það munu leikmenn missa af þessum leik sem gerðu ekkert rangt," sagði Aitor Karanka á blaðamannafundinum. Pepe og Sergio Ramos verða báðir í banni í kvöld sem og Mourinho.

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, svaraði þessum ásökunum þannig að Sergio Busquets hafi gert þarna mistök en það sé undir UEFA komið að refsa honum. Guardiola ætlar sjálfur ekki að aðhafast neitt eða að refsa sínum manni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×