Fótbolti

Forseti Barcelona hótar að skera á öll tengsl við Real Madrid

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mourinho sendur upp í stúku
Mourinho sendur upp í stúku Mynd/Nordic Photos/Getty
Sandro Rosell, forseti spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, segir á heimasíðu félagsins tilbúinn að skera á öll tengsl við erkifjendurna í Real Madrid. Hann segir hegðun Madridinga á síðasta tímabili hafa farið út fyrir öll velsæmismörk.

„Real Madrid fór út fyrir öll mörk í heilbrigðri íþróttasamkeppni með ásökunum á hendur okkar félagi sem áttu sér engann grundvöll,“ segir Rosell á heimasíðu Barcelona.

„Haldi þetta áfram er ekkert annað í stöðunni en að binda endi á samband stofnananna, sem við höfum engann áhuga á að gera.“

Félögin mættust fimm sinnum á síðustu leiktíð, þar af fjórum sinnum á átján dögum. Mikil spenna var fyrir viðureignir liðanna en það er óhætt að segja að knattspyrnan sem spiluð var hafi ekki vakið mesta athygli. Slæm hegðun þjálfara og leikmanna kom í veg fyrir það.

Jose Mourinho þjálfari Real Madrid fór mikinn á blaðamannafundi eftir síðari leik liðanna í Meistaradeildinni þar sem Barcelona komst áfram. Hann sagði dómara hliðholla Barcelona. Hann hlaut fimm leikja bann frá Evrópukeppni en banninu hefur verið áfrýjað.

Þá var Portúgalinn sendur upp í stúku í deildarleik liðanna á Bernabeu.

Real Madrid sakaði auk þess leikmenn Barcelona um leikaraskap og sögðu miðjumanninn Sergio Busquets hafa verið með kynþáttafordóma gagnvart Marcelo hinum brasilíska bakverði Madridinga. UEFA sá ekki ástæðu til þess að rannsaka málið.

Barcelona varð spænskur meistari og Evrópumeistari á nýliðnu tímabili. Real Madrid sigraði Börsunga í úrslitaleik Konungsbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×