Erlent

Nokkuð vissir um að Breivik hafi ekki átt vitorðsmenn

Samsett mynd Vísis.
Með hverjum deginum sem líður verður norska lögreglan æ vissari um að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hafi verið einn að verki þegar hann lét til skarar skríða með skotárás í Utöya og sprengitilræði í miðborg Oslóar í síðasta mánuði. Þetta sagði lögmaður norsku lögreglunnar, Christian Hatlo, á blaðamannafundi í dag. Að hans sögn eru engir aðrir grunaðir um að hafa verið í vitorði með Breivik.

Þá kom einnig fram á fundinum að lögreglu hefur ekki tekist að finna myndavél sem talið er að Breivik hafi verið með áður en hann var handtekinn. John Roger Lund yfirlögregluþjónn bað fólk einnig um að sýna því skilning að rannsókn málsins geti tekið langan tíma.

Breivik var í gær yfirheyrður í samtals tíu tíma og nú hafa lögreglumenn samtals rætt við hann í fjörutíu klukkustundir frá því hann var handtekinn. Hann mun vera afar samvinnuþýður þegar kemur að því að útskýra hvernig hann skipulagði árásirnar en yfirheyrslan í gær snérist um að fá skýrari mynd af atburðarrásinni.

Áður hefur verið greint frá því að Breivik hafi íhugað að neita að tjá sig nokkuð um málið við lögreglu en það virðist ekki á rökum reist. Yfirheyrslur yfir honum halda áfram í dag, að því er fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×