Fótbolti

Torres: Veit ekki hvað Guardiola gerir til að halda öllum ánægðum hjá Barca

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Valentina dóttir hans.
Pep Guardiola og Valentina dóttir hans. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fernando Torres, leikmaður Chelsea og spænska landsliðsins, hrósaði Pep Guardiola, þjálfara Barcelona, fyrir það hversu vel honum gengur að halda leikmönnum Barcelona við efnið. Hinn fertugi Guardiola er búinn að vinna 12 titla af 15 mögulegum síðan að hann tók við Barcelona.

„Í dag er eitt lið sem er langt fyrir ofan önnur lið á Spáni og í Evrópu og það lið er Barcelona," sagði Fernando Torres í viðtali inn á heimasíðu spænsku deildarinnar.

„Það er samt örugglega erfitt að halda uppi metnaðinum hjá Barcelona. Þú vinnur kannski allt í tvö ár en á þriðja árinu gengur ekki allt upp og á því fjórða fara leikmenn að vilja fara frá félaginu," nefnir Torres sem dæmi en svo er ekki þróunin á Nývangi enda Barcelona þegar búið að vinna tvo titla á þessu tímabili.

„Það er ekki auðvelt að vinna á hverju ári og ég veit ekki hvað Guardiola gerir til þess að halda öllum leikmönnunum sínum ánægðum. Það sem skiptir líka miklu máli er að hann finnur hlutverk handa öllum leikmönnum og samt eru alltaf að koma upp leikmenn í gegnum unglingastarfið. Þetta er allt annað en auðvelt," sagði Torres og hann tjáði sig líka um ótrúlega yfirburði Barca og Real í spænsku deildinni.

„Deildin er ekkert lakari en hún hefur verið þrátt fyrir yfirburði Barcelona og Real Madrid. Barcelona og Real Madrid eru bara með miklu betri lið en þau voru með áður en ég held að hin liðin séu í sama gæðaflokki og þau voru áður," sagði Torres.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×