Fótbolti

Gætu misst Meistaradeildarpeninga sína fyrir brot á rekstrareglum UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City hefur safnað að sér stjörnuleikmönnum og hefur líka borgað vel fyrir þá.
Manchester City hefur safnað að sér stjörnuleikmönnum og hefur líka borgað vel fyrir þá. Mynd/Nordic Photos/Getty
Samtök stærstu knattspyrnufélaga Evrópu hafa sett saman tillögu að því hvaða refsiaðgerðum UEFA ætti að beita þegar félög brjóta nýjar rekstrareglur UEFA. Lagt er til að félög missi  Meistaradeildarpeninga eða Evrópudeildarpeninga sína og verði auk þessa sett í félagsskiptabann.

Tap félaga á tímabili má ekki fara yfir 45 milljónir evra samkvæmt nýjum reglum UEFA og miðað við eyðslu sumra félaganna þá eru þau langt frá því að ná þessum lágmörkum. Ríkir eigendur hafa dælt peningum inn í mörg félög og það eru litlar líkur að þeir fái mikið af þeim til baka í gegnum rekstrartekjur.

Samtök félaganna taka þó ekki lokaákvörðun í þessu máli því á endanum mun fjármálaeftirlit UEFA ákveða refsingar þeirra félaga sem eru rekin með meiri halla en 45 milljónir evra á tímabili. Evrópsku félögin voru rekin með eins milljarða evra tapi á síðasta tímabili og því varð UEFA að taka á þessari þróun en hvernig það mun ganga að refsa þeim seku á eftir að koma í ljós.

Sum félaganna hafa gripið til umdeildra aðgerða til að rétta af rekstrarreikninginn.  Manchester City hefur eytt gríðarlega miklum peningum í leikmenn en átti mótleik þegar félagið gerði 300 milljón punda styrktarsamning við arabíska flugfélagið Etihad. Fjármálaeftirlit UEFA á þó eftir að skoða þann einstaka samning betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×