Fótbolti

Zagreb-maðurinn Leko: Ég ætlaði aldrei að meiða Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jerko Leko fylgist með Cristiano Ronaldo í leiknum á miðvikudaginn.
Jerko Leko fylgist með Cristiano Ronaldo í leiknum á miðvikudaginn. Mynd/AP
Jerko Leko, leikmaður Dinamo Zagreb, segir ekkert til í því að hann hafi ætlað sér að meiða Cristiano Ronaldo í leik Dinamo Zagreb og Real Madrid í Meistaradeildinni á miðvikudaginn. Það þurfti að sauma nokkur spor í hægri ökkla Ronaldo eftir tæklingu Leko en Real Madrid vann leikinn 1-0.

„Ég setti fótinn fyrir skotið en ég sá ekki neitt. Ég var að reyna við boltann og ætlaði aldrei að meiða Ronaldo," sagði Jerko Leko við króatíska blaðið Jutarnji List.

„Ronaldo heldur því fram að ég hafi ætlað að meiða hann en þó að hann sé stórkostlegur leikmaður þá er hann örlítið hrokafullur. Tæklingin var hinsvegar algjört slys," sagði Leko en hann viðurkenndi að Zagreb-liðið hafi ætlað að taka aðeins á stórstjörnunum í Real Madrid..

„Við þurftum að vera fastari fyrir en vanalega til að eiga möguleika á því að stoppa þá. Ef við hefðum gefið þeim pláss og tíma þá hefðu þeir farið illa með okkur," sagði Leko.

Cristiano Ronaldo gat ekki æft með Real Madrid í dag og það er óvissa um þátttöku hans í leiknum á móti Levante á útivelli á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×