Fótbolti

Xavi: Fabregas gerir mig að betri fótboltamanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas og Xavi.
Cesc Fabregas og Xavi. Mynd/AP
Spánverjinn Xavi, einn allra besti miðjumaður í heimi, telur að koma Cesc Fabregas til Barcelona muni hjálpa honum til að verða enn betri leikmaður en Xavi er nú handhafi allra stærstu titlanna sem fótboltamaður getur unnið.

Fabregas kom til Barca frá Arsenal í ágúst og flestir sjá hann fyrir sér sem eftirmann Xavi í Barcelona-liðinu frekar en að þeir myndu spila mikið saman á miðju liðsins. Svo hefur verið raunin í spænska landsliðinu en Pep Guardiola er tilbúinn að nota þá saman inn á vellinum.

„Okkur líður mjög vel saman inn á vellinum og ég tel að við vegum hvorn annan upp," sagði Xavi á blaðamannfundi í dag.

Fabregas hefur byrjað mjög vel með Barcelona og samvinna hans og Lionel Messi hefur verið frábær. Fabregas er með 4 mörk og 4 stoðsendingar í fyrstu 4 deildarleikjum sínum með Barca.

„Ef hann fer fram þá bíð ég og valda hans svæði og svo öfugt. Við höfum sýnt það mörgum sinnum á þessu tímabili. Ég tel að Cesc geri mig að betri fótboltamanni," sagði Xavi.

Xavi verður 32 ára gamall í janúar en Fabregas er 24 ára. Xavi hefur verið algjör lykilmaður í liði Barcelona sem hefur unnið spænska meistaratitilinn þrjú ár í röð og Meistaradeildina þrisvar sinnum á síðustu sex árum. Þeir urðu síðan saman Heims- og Evrópumeistarar með spænska landsliðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×