Fótbolti

Guardiola hugsar um að hætta með Barcelona-liðið á hverjum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola hefur náð frábærum árangri sem þjálfari Barcelona en hann er og hefur alltaf verið harður á því að gera ekki langtímasamning við Barcelona þrátt fyrir að það sé mikill áhugi á því meðal forráðamanna félagsins.

„Það líður ekki sá dagur að ég hugsi um að hætta með liðið. Ég tel að sem þjálfari verði þú að hugsa þannig að hann gæti hætt á morgun," sagði Pep Guardiola en hann hefur unnið tólf titla á Nou Camp síðan að hann tók við liðinu fyrir þremur og hálfu ári síðan.

Guardiola segist hafa vitað það strax þegar hann var 25 ára gamall að hann vildi verða þjálfari eftir að ferlinum lyki. Guardiola hefur þróað einstakan leikstíl Barcelona, þar sem boltinn gengur hratt á milli manna í stuttum sendingum og liðið pressar auk þess mótherjana mjög hátt á vellinum. Barcelona hefur fyrir vikið komist í hóp bestu liða allra tíma að margra mati.

„Ég vinn betur þegar ég hef frjálsræði til að ákveða mína framtíð. Langtímasamningar, sem binda mann hugsanlega á stað sem maður vill ekki vera á, gera mig bara kvíðinn og áhyggjufullan. Ég get ekki planað lengra en hálft ár eða eitt ár fram í tímann. Annað er mér ómögulegt," sagði Guardiola sem var sjálfur sigursæll sem leikmaður á sínum tíma.

„Ég öfunda leikmennina að vera að spila því mér líður oft eins og ég sé enn fótboltamaður," sagði Guardiola.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×