Fótbolti

Pele: Neymar er mun betri en Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gengur lítið hjá Lionel Messi með argentínska landsliðinu.
Það gengur lítið hjá Lionel Messi með argentínska landsliðinu. Mynd/AP
Brasilíumaðurinn Pele heldur áfram að tala niður Argentínumanninn Lionel Messi sem flestir nema kannski hann telja Messi vera besta knattspyrnumann heims.

Pele er í engum vafa um að landi hans Neymar sé betri alhliðaleikmaður en Lionel Messi.

„Ef við berum þá saman þá tel ég að Neymar sé mun betri og mun fullkomnari leikmaður. Hann getur skotið með báðum fótum, getur einleikið til bæði hægri og vinstri og skorar fullt af mörkum," sagði Pele í viðtali við Globoesporte.

„Messi er vissulega mjög góður en það fer mikið eftir því hvar hann er að spila. Hann stendur sig mjög vel með Barcelona-liðinu en það er ekki sömu sögu að segja af frammistöðu hans með argentínska landsliðinu þar sem hann er í vandræðum. Neymar er hinsvegar að spila vel með bæði Santos og brasilíska landsliðinu," sagði Pele.

Neymar fær tækifæri til að bera sig saman við Lionel Messi þegar lið þeirra mætast í Heimsbikar félagsliða síðar í þessum mánuði.

„En er Neymar betri en ég? Hann gæti verið það en það mun samt enginn geta náð sama árangri og Pele," sagði Pele.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×