Fótbolti

Dani Alves: Guardiola er hjartað í Barcelona-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Alves.
Dani Alves. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilíski bakvörðurinn Dani Alves hrósar mikið þjálfara liðsins Josep Guardiola og segir að nú sé aðalmarkmið leikmanna liðsins að sannfæra Guardiola að halda áfram með liðið.

„Við vitum það allir að við værum ekki þetta frábæra lið án hans," sagði Dani Alves sem fékk að fara snemma í jólafrí til þess að geta hitt fjölskyldu sína í Brasilíu um jólin.

„Pep er hjartað í Barcelona-liðinu og í félaginu. Við hefðum aldrei unnið svona marga titla án hans. Þess vegna er aðalmarkmið okkar að sjá til þess að hann verði í þessu starfi í mörg ár til viðbótar," sagði Dani Alves en Barcelona hefur unnið þrettán titla undir stjórn Guardiola.

Dani Alves segir að Guardiola hafi fundið einstaka blöndu að fá svona marga frábæra leikmenn til að vinna saman og að þjálfarinn leggi mikla áherslu á það að allir njóti sín inn á vellinum.

„Fótbolti var orðinn að íþrótt sem menn nutu þess ekki lengur að spila og þetta snérist allt um að ná úrslitum. Guardiola hefur snúið þessu við hjá okkur. Við spilum að sjálfsögðu til sigurs en við gerum það á þann hátt að við spilum góðan fótbolta og njótum þess að vera inn á vellinum," sagði Dani Alves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×