Keflavík unnu í kvöld sigur á Snæfelli í Toyota höllinni í Keflavík, 112-89, þar sem heimamenn áttu harma að hefna.
Þessi lið mættust í úrslitum deildarinnar í fyrra og kláraði Snæfell þá einvígið örugglega í úrslitaleik í Keflavík. Snæfellingar gátu verið þokkalega bjartsýnir enda unnu þeir alla leikina í Keflavík í úrslitarimmunni í fyrra.
Fyrsti leikhluti var hnífjafn en Snæfellingar þó alltaf með undirtök í leiknum og náðu þeir mest fimm stiga forskoti. Fyrsta leikhluta lauk í stöðunni 26-28 fyrir Snæfell og voru Thomas Sanders og Pálmi Freyr Sigurgeirsson stigahæstir með 11 stig hvor.
Það kom hinsvegar allt annað Keflavíkurlið út á völlinn í öðrum leikhluta, þeir kafsigldu gestina og náðu 18 stiga forskoti rétt fyrir hálfleik í stöðunni 62-44. Munaði þá miklu að Hörður Axel Vilhjálmsson hitnaði og hélt Thomas Sanders áfram að spila vel og var með sautján stig í fyrri hálfleik. Hjá Snæfelli var Pálmi Freyr Sigurgeirsson áfram atkvæðamestur með fimmtán stig.
Snæfellingar komu sterkir inn í seinni hálfleik og munaði um að Jón Ólafur Jónsson sem aðeins skoraði sex stig í fyrri náði tvöfaldri tvennu með 28 stig og tólf fráköstum. Forysta Keflvíkinga reyndist hins vegar of stór og náðu Snæfellingar minnst að minnka hana niður í níu stig rétt fyrir lok þriðja leikhluta sem lauk 84-75.
Keflvíkingar reyndust hinsvegar of sterkir í fjórða leikhluta og Thomas Sander, sem átti frábæran leik með 30 stig, kláraði leikinn um miðbik fjórða leikhluta er Keflvíkingar náðu mest 24 stiga forskoti.
Hjá Keflavík voru Thomas Sander og Hörður Axel atkvæðamestir en Jón Ólafur Jónsson og Pálmi Freyr Sigurgeirsson voru stigahæstir hjá Snæfell.
Jón Ólafur: Vantaði algjörlega baráttuna
„Þetta var virkilega lélegt í dag, sérstaklega varnarleikurinn og Keflvíkingar átu okkur í fráköstunum," sagði Jón Ólafur Jónsson, leikmaður Snæfells.
„Það var virkilega mikil barátta bæði í byrjunarliðinu þeirra og hjá þeim sem komu af bekknum sem vantaði algjörlega hjá okkur í kvöld."
„Þrátt fyrir að bæði lið eru talsvert breytt hlýtur það að hafa verið auka krydd fyrir þá að hefna tapsins í fyrra, þetta hefur eðlilega sitið í þeim og þeim hefur langað að hefna. Það er alltaf gaman að koma hingað, gólfið gott og alltaf fullt í stúkunni."
„Við lentum í vandræðum við að stöðva mann á mann, fórum í svæði og þeir hirtu hvert einasta sóknarfrákast og gátu gert hvað sem þeir vildu inn í teignum, menn voru greinilega ekki tilbúnir í það," sagði Jón.
Guðjón: Svöruðum vel fyrir okkur
„Það gerði þá aðeins veikari að það vantaði stóran leikmann hjá þeim inn í teig en mér fannst við spila það vel að það hefði ekki skipt máli," sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflvíkinga.
„Menn muna vel eftir síðasta leiknum í fyrra, það á að duga til að gera leikmennina tilbúna og mér finnst við hafa svarað vel fyrir okkur. Við erum þó ekki enn komnir á það stig sem við viljum vera á, við getum ennþá bætt okkur," sagði hann.
Keflvíkingar sitja í þriðja sæti í deildinni eftir leikinn í kvöld.
„Það er búið að vera góður stígandi í liðinu þótt mér finnist of langt milli leikja, það eru tíu dagar milli leikja, ef við fengjum að spila meira held ég að liðið yrði svakalegt."
Góður annar leikhluti var undirstaða sigur Keflavíkur í kvöld en þeir náðu forystunni fljótlega og slepptu henni aldrei eftir það.
„Menn áttuðu sig á strax í öðrum leikhluta hvað menn voru að gera vitlaust í byrjun, bæði sóknar og varnarlega. Við fórum að spila almennilega vörn, þeir setja fimm þrista í fyrsta leikhluta en aðeins einn í öðrum leikhluta."
Magnús Þór Gunnarsson sneri aftur í lið Keflavíkur en Thomas Sanders stal senunni með stórkostlegum leik.
„Sanders var mjög góður, hann bætir helling við þetta lið. Hann getur spilað nokkrar stöður og lyftir okkur upp á hærra plan. Magnús kemur svo með ákveðna vídd í þetta lið sem hefur áður vantað, hann er vanur að setja niður mikilvæga þrista," sagði Guðjón.
PSG
Manchester City