Skoðun

Gjaldþol útgerðar

Þórólfur Matthíasson skrifar
Hagstofa Íslands vinnur árlega yfirlit yfir hag fiskveiða og fiskvinnslu. Yfirlit þetta er byggt á skattframtölum fyrirtækja í þessum greinum. Yfirlit ársins 2009 kom út í lok janúar 2011. Það er fróðleg lesning í ljósi umræðu um fyrningarleið og aðrar hugmyndir um greiðslu útgerðarmanna fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Yfirlitið sýnir að svokölluð verg hlutdeild fjármagns (EBITA) nam samtals um 63,5 milljörðum króna í veiðum og vinnslu árið 2009. Reiknaðar afskriftir og reiknaður vaxtakostnaður nemur 18,5 milljörðum króna.

Hreinn hagnaður veiða og vinnslu er því 45 milljarðar króna.

Þá kemur fram að eigið fé greinanna tveggja hefur aukist um 86,5 milljarða króna milli áranna 2008 og 2009. Reiknaðist neikvætt um 60 milljarða króna árið 2008 en reiknast jákvætt um 26,5 milljarða króna í árslok 2009. Tekið skal fram að verðmæti kvótans er ekki inn í þessum tölum nema að mjög takmörkuðu leyti.

Helsta uppspretta hreins hagnaðar í fiskveiðum er ókeypis aðgangur að fiskveiðiauðlindinni. Ástralir kalla slíkan hagnað ofurhagnað (e. superprofit), hér á landi hefur nafngiftin auðlindarenta gjarnan verið notuð. Hreinn hagnaður í fiskveiðunum samkvæmt mælingum Hagstofunnar er 20,5 milljarðar króna. Útgerð og vinnsla er víða á sömu hendi. Þar kann hending (eða ákvæði í kjarasamningum sjómanna) að ráða því hvort hagnaður kemur fram hjá vinnslunni eða í veiðunum. Við getum því slegið því föstu að á árinu 2009 var auðlindarenta (ofurhagnaður) í sjávarútvegi á Íslandi á bilinu 20 til 45 milljarðar króna.

Þess má geta að árið 2009 lækkaði Alþingi álagt veiðigjald úr 500 til 1000 milljónum í 170 milljónir króna. Þ.e.a.s. á sama tíma og útgerð og fiskvinnsla hagnaðist sem aldrei fyrr höfðu forsvarsmenn þessara greina geð í sér að taka við ölmusu úr galtómum ríkissjóði að upphæð á bilinu 300 til 800 milljónir króna! Einhver hefur einhverntíma kallað slíkt framferði frekju.

Hugsum okkur nú að hið opinbera kalli inn 8% af úthlutuðum veiðiheimildum og leigi síðan frá sér. Leigutekjur af þessum 8% mundu líklega nema um 1,6 til 3 milljörðum króna í ár. Ofurhagnaður útgerðarinnar yrði því um 18 til 43 milljarðar króna á þessu ári. Ætli útgerðin geti ekki lifað við það?

 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×