Fótbolti

Messi getur jafnað afrek Platini í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Michel Platini.
Lionel Messi og Michel Platini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lionel Messi fær að vita það í kvöld hvort að hann fái Gullboltann þriðja árið í röð og komist þá í hóp með Frakkanum Michel Platini, núverandi forseta UEFA en Platini var kosinn besti knattspyrnumaður Evrópu 1983, 1984 og 1985.

FIFA og franska blaðið France Football hófu samstarf í fyrra en það sem áður voru tvö verðlaun, Besti knattspyrnumaður Evrópu og FIFA-knattspyrnumaður ársins, eru nú einu og sömu verðlaunin. Sigurvegarinn fær að launum Gullbolta FIFA.

Lionel Messi er einn af þremur sem eru tilnefndir að þessu sinni en hinir eru Xavi og Cristiano Ronaldo en sá síðarnefndi var sá síðasti til að vinna Gullboltann á undan Messi árið 2008. Xavi varð í 3. sæti í kjörinu í fyrra á eftir Messi og Andres Iniesta.

Það búast allir við því að Messi vinni verðlaunin þriðja árið í röð enda átti hann frábært ár með Barcelona sem varð á árinu spænskur meistari, vann Meistaradeildina sem og Heimsmeistarakeppni félagsliða.

Uppskeruhátíð FIFA fer fram í Zurich í Sviss í kvöld og þar verður einnig tilkynnt um val á bestu knattspyrnukonu heims, bestu þjálfuri, heims og fallegasta marki ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×