Fótbolti

Guardiola um þjálfara Athletic Bilbao: Er sá besti í heimi í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcelo Bielsa.
Marcelo Bielsa. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, sparar ekki hrósið til Marcelo Bielsa, þjálfara Athletic Bilbao liðsins sem fór illa með ensku meistarana í Manchester United í tveimur leikjum í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Bilbao vann fyrri leikinn 2-1 í gær eftir að hafa unnið 3-2 sigur á Old Trafford í síðustu viku.

„Við getum lært mikið af honum. Í dag er Bielsa besti þjálfarinn í heiminum. Það verður dásamlegt að mæta hans mönnum í bikarúrslitaleiknum," sagði Pep Guardiola en bikarúrslitaleikur Barca og Bilbao fer fram í Madrid 25. maí næstkomandi.

Marcelo Bielsa er 56 ára gamall Argentínumaður sem var áður með landslið Síle í fjögur ár. Hann þjálfaði líka argentínska landsliðið frá 1998 til 2004.

„Við erum ánægðir með að Bielsa sé í spænsku deildinni og við getum því lært af honum. Það var gjöf til fótboltans hvernig þeir fóru áfram á móti Manchester United," sagði Guardiola en Bilbao vann viðureignirnar samtals 5-3.

Bæði Barcelona og Athletic Bilbao fengu að vita um mótherja sína í Evrópukeppnunum í dag. Barca mætir AC Milan í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar en Bilbao lenti á móti þýska liðinu Schalke í átta liða úrsltum Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×