Innlent

Hafði efasemdir um heilindi breska fjármálaeftirlitsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Mathiesen bar vitni í Landsdómi í dag.
Árni Mathiesen bar vitni í Landsdómi í dag.
Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, segist hafa verulegar efasemdir um heilindi breska fjármálaeftirlitsins í samskiptum við Íslendinga þegar til stóð að koma Icesave inn í dótturfélag Landsbankans í Bretlandi. „Ég hef miklar efasemdir um heilindi breska fjármálaeftirlitsins við okkur á þessum tíma," sagði Árni fyrir Landsdómi í dag.

Þá sagði Árni líka að samskipti við bresk stjórnvöld hafi verið mjög skrýtin. „Samtöl okkar Geirs og samskipti Landsbankans við breska aðila voru mjög skrýtin," sagði Árni. Bresk þingnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, hafi sagt ósatt um svör Árna í umtöluðu símtali sem þeir áttu saman um Icesave. „Þetta er í eina skiptið sem ég veit um að þingnefnd segir að ráðherra hafi sagt ósatt," sagði Árni.

Aðspurður sagði Árni hugsanlegt að þegar á leið hafi breska fjármálaeftirlitið alls ekki viljað Icesave inn í dótturfélag. Afstaða þeirra hafi breyst eftir því sem á leið og hugsanlega hafi þeir viljað að þetta yrði íslenskur vandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×