„Ég held að þetta sé stórsigur fyrir Geir," segir Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, um niðurstöðu Landsdóms í máli gegn Geir H. Haarde. Til stóð einnig að ákæra Árna auk tveggja annarra ráðherra, vegna sama máls, en niðurstaðan á Alþingi var sú að Geir einn skyldi verða ákærður.
Árni segir Geir hafa verið sýknaður af öllum þeim ákæruatriðum sem skiptu máli. „Það dettur ekki nokkrum heilvita manni í hug að nokkrir ríkisstjórnarfundir, fleiri eða færri, hefðu eitthvað með hrunið að gera," segir Árni sem bætir við að það hafi ekki skort upp á að málin væru rædd innan ríkisstjórnarinnar.
Hann segir að ákveðnar hefðir hefðu giltu á meðal ráðherranna og frá því hefði verið reynt að gera grein fyrir í aðalmeðferð málsins. Árni segir að dómurinn hafi ákveðið að hafa þær skýringar að engu með dómi sínum.
„En mér finnst það í raun mikilvægt að hann hafi verið dæmdur fyrir þetta atriði, þar sem það gefur honum möguleika á að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem farið yrði yfir það hvort málsmeðferðin hafi verið réttlætanleg," segir Árni.
Um pólitísk áhrif dómsins segir Árni að dómurinn sýni það að, í öllu því sem skiptir máli, hafi þingið farið villu síns vegar. „Þeir sem vildu ákæra alla ráðherrana ættu að íhuga alvarlega hvort þeir ættu að fara í framboð aftur," segir Árni.
