Erlent

Norskt dagblað vill Stoltenberg burt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jens Stoltenberg sætir harðri gagnrýni í Verdens Gang.
Jens Stoltenberg sætir harðri gagnrýni í Verdens Gang. mynd/ afp.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, ætti að segja af sér embætti vegna sannleiksskýrslunnar um hryðjuverkin í Noregi í fyrra, að mati leiðarahöfundar norska blaðsins Verdens Gang.

Eins og fram kom í fréttum í gær er það ein meginniðurstaða skýrslunnar, sem kom út í gær, að það hefði mátt koma í veg fyrir hryðjuverkin í Útey og Osló, þegar Anders Behring Breivik varð 77 manns að bana.

Í skýrslunni kemur skýrt fram að norska lögreglan hafi brugðist of seint við þegar Breivik réðst til atlögu í Útey. Leiðarahöfundur gerir þetta að umtalsefni:

„Samfélagsstofnanir sem áttu að vernda bæði þjóð og land virkuðu ekki. Verri dóm gæti ríkisstjórn ekki hafa fengið. Þau brugðust, þau brugðust okkur," segir orðrétt í leiðaranum.

Á blaðamannafundi sem Stoltenberg hélt í gær eftir að skýrslan kom út var hann þráspurður að því hvort hann hyggðist segja af sér. Hann útilokaði það ekki. Hann sagðist vera ábyrgur fyrir því sem hefði gengið upp og því sem hefði ekki gengið upp þennan örlagaríka daga. Núna væri hann ábyrgur fyrir því sem þyrfti að bæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×