Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik sagðist eiga skilið heiðursmerki og krafðist þess að vera látinn laus.
Þetta sagði hann í réttarsal í Ósló í gær, þegar ákveðið var að framlengja gæsluvarðhald hans til 16. apríl, en þann dag hefjast réttarhöld í máli hans.
Breivik hefur viðurkennt að hafa myrt 77 manns 22. júlí í sumar.
Myndatökur voru leyfðar í réttarsalnum í gær, í fyrsta sinn frá því að Breivik var handtekinn. Hann sagði ekkert í tveggja mínútna beinni sjónvarpsútsendingu, en sagði stuttu síðar við dómarann að hann tæki ekkert mark á þessum dómstól og teldi sig ekki hafa framið neinn glæp.
Geðlæknar komust í haust að þeirri niðurstöðu að hann væri geðveikur og þar af leiðandi ekki sakhæfur. Önnur nefnd geðlækna hefur hins vegar fengið það verkefni að endurskoða þá niðurstöðu.
Verði hann metinn sakhæfur á hann yfir höfði sér allt að 21 árs fangelsi, en annars verður hann settur í umsjón lækna á geðsjúkrahúsi um óákveðinn tíma.- gb
Sagðist eiga skilið heiðursmerki
