Erlent

Segist fórnarlamb kynþáttamisréttis

anders behring breivik
anders behring breivik
Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik segir umræðu um geðheilsu sína einkennast af kynþáttamisrétti. Þetta sagði hann fyrir dómi í gær, en þar með lauk vitnisburði hans í málinu.

Breivik er áfjáður í að sanna að hann sé fullkomlega heill á geði, en það er í raun eini óvissuþátturinn í málinu, enda játaði hann að hafa myrt fólkið.

Hann bar við sjálfsvörn en litlar líkur eru á því að þau rök verði tekin gild.

Hann kvartaði hátt yfir að þurfa að þola að geðheilsa hans væri dregin í efa. Enginn hefði sent hann í sakhæfismat ef hann hefði verið „skeggjaður jihadisti".

„En þar sem ég er herskár þjóðernissinni, þarf ég að þola alvarlegt kynþáttamisrétti," sagði hann. „Þeir eru að reyna að grafa undan réttmæti alls sem ég stend fyrir."

Tvær rannsóknir voru gerðar á sakhæfi Breiviks, en niðurstöðurnar voru á sinn veginn hvor.

21 árs fangelsi liggur við brotum Breiviks verði hann fundinn sekur, en þann dóm má framlengja verði talin stafa ógn af honum. Verði hann fundinn ósakhæfur verður hann vistaður á réttargeðdeild um óákveðinn tíma.

Breivik sýndi enga iðrun vegna morðanna í Útey, en baðst afsökunar á því að kráareigandi hefði verið meðal þeirra sem létu lífið í sprengingunni í Ósló. Hann hafi verið almennur borgari og ekki átt skilið að deyja. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×