Erlent

Skelfileg aðkoma eftir árásina

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik
Norski öryggisvörðurinn Tor Inge Kristoffersen segir að ástandið í miðborg Óslóar hafi einna helst líkst stríðsvettvangi eftir að Anders Behring Breivik hafði sprengt 950 kílógramma sprengju fyrir utan stjórnsýslubygginguna, þar sem forsætisráðherrann hafði aðsetur.

Kristofferson hafði fylgst með Breivik leggja bifreið sinni fyrir utan bygginguna og var að skoða bílnúmerið, til að kanna hvort bifreiðinni mætti leggja þarna, þegar sprengjan sprakk.

Átta manns létu lífið og var aðkoman skelfileg: „Meira en hundrað líkamspartar fundust í stjórnsýsluhverfinu,“ sagði Ole Morten Störseth lögreglumaður, sem fékk það verkefni að bera kennsl á hina látnu.

Þetta kom fram á sjöunda degi réttarhaldanna yfir Breivik í gær. Yfirheyrslum yfir honum er lokið í bili og þessa dagana lýsa vitni atburðarásinni í Ósló og á Úteyju, þar sem hann myrti 69 manns.

Thor Langli, sem stjórnaði aðgerðum lögreglunnar, segir að sig hafi strax grunað að sami maður væri að verki þegar tilkynningar bárust um skotárás á Úteyju stuttu eftir árásina í Ósló.

„Ég gat ekki ímyndað mér að tveir menn gætu verið með svona brjálaðar hugmyndir,“ sagði Langli við réttarhöldin í gær.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×