Skoðun

„Gróðahyggja og fíflaskapur“

Margrét Kristmannsdóttir og Andrés Magnússon skrifar
Flestum okkar finnst sem betur fer bæði sjálfsagt og eðlilegt að virða þá samninga sem við gerum, enda vandséð hvernig viðhalda megi siðuðu samfélagi án þess að slíkt væri hið almenna viðhorf. Á hinum alþjóðlega vettvangi hafa íslensk stjórnvöld gert margvíslega samninga, við önnur ríki og ríkjasambönd. Allir eru þessir samningar þess eðlis að þeir veita báðum aðilum réttindi, en leggja jafnframt á þá tilteknar skyldur. Hið greiða aðgengi sem við Íslendingar höfum að erlendum mörkuðum með mikilvægustu útflutningsvörur okkar, byggist ekki hvað síst á alþjóðasamningum. Við teljum það sjálfsagðan hlut að flytja út vörur og gerum raunar kröfu til þess að samningar þess efnis séu virtir í hvívetna.

Einn þeirra alþjóðasamninga sem við Íslendingar höfum gert fjallar um aukið frelsi í viðskiptum milli landa með landbúnaðarvörur. Ekki er hægt að segja að íslenskum stjórnvöldum hafi verið mjög áfram um það að efna alþjóðlega samninga sem tengjast landbúnaðarafurðum. Hafa fyrirtæki og hagsmunasamtök ítrekað þurft að beita lagalegum úrræðum til þess að fá stjórnvöld til þess eins að horfast í augu við skyldur sínar á þessu sviði.

Hið ríkjandi viðhorf stjórnmálamanna til þessara mála kemur skýrt fram í viðtali við Guðna Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, í síðustu viku. Þar lýsir Guðni vandlætingu sinni á því að veitt hafi verið heimild til innflutnings á nýsjálensku lambakjöti og stærir sig í þessu sama viðtali af því að hafa komið í veg fyrir slíkan innflutning öll þau átta ár sem hann gegndi embætti landbúnaðarráðherra. M.ö.o. stærði fyrrverandi ráðherrann sig af því að hafa virt að vettugi alþjóðasamning sem við erum skuldbundin af að þjóðarrétti. Grímulaus sérhagsmunagæslan var þannig mikilvægari en alþjóðlegar samningsskyldur þjóðarinnar og hagsmunir neytenda.

Nú hagar málum þannig til að Guðni Ágústsson gegnir formennsku í stjórn Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins, en markmið samtakanna er að vinna að hagsmunamálum matvælafyrirtækja sem vinna úr íslenskum landbúnaðarvörum. Það hlýtur því að hafa kætt Guðna þegar nýlega var ráðið í nýja stöðu verkefnisstjóra vöruþróunar hjá Mjólkursamsölunni enda var haft eftir forstjóra MS að mikilvægt væri að skapa möguleika fyrir aukinn útflutning. MS hefur verið að hasla sér völl á erlendum mörkuðum – einkum í Bandaríkjunum og Evrópu.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Á sama tíma og MS felur Guðna að gæta hagsmuna sinna innan Samtaka iðnaðarins hljóta stjórnendur fyrirtækisins að þakka Guði fyrir að hvorki í Bandaríkjunum né í Evrópu skuli ekki vera fyrir á fleti landbúnaðarráðherrar í líkingu við Guðna. Landbúnaðarráðherrar sem leita allra leiða til virða að vettugi gerða samninga.

En einmitt þennan tvískinnung hafa innlendir framleiðendur með fulltingi stjórnmálamanna komist upp með áratugum saman – að telja alveg sjálfsagt að flytja út bæði mjólkur- og kjötvörur, en gera allt til að koma í veg fyrir innflutning sömu vara. Skyldi þar ráða gróðahyggja og fíflaskapur?

Það telst vonandi til undantekningar að þeir sem gæta hagsmuna Íslendinga telji það gróðahyggju og fíflaskap að virða samninga sem Íslendingar eru aðilar að, eins og Guðni komst að orði um nýlegan innflutning á lambakjöti. Vart getur það talist til gróðahyggju eða fíflaskapar að verslanir og veitingahús í landinu geti boðið viðskiptavinum sínum upp á t.d. lambakjöt sem viðskiptavinir þeirra biðja um. Í sumar gerðist það enn á ný að veitingahús þurftu að taka lambakjöt af matseðli sínum svo vikum skiptir og kjötvinnslur fengu ekki það kjöt sem þær óskuðu eftir. Það hlýtur að vera krafa verslana og veitingahúsa að fá að flytja inn kjöt ef innlendir framleiðendur geta ekki annað eftirspurn. Slíkur innflutningur flokkast vart undir skemmdarverk eins og Guðni heldur fram enda er heildarinnflutningur árlega langt innan við 5% af heildarkjötneyslu landsmanna og íslenskir framleiðendur því með yfirburðastöðu á markaðinum.

Forsvarsmenn SVÞ hafa undanfarin misseri barist fyrir því að ofurálögur á greinina í formi tolla og vörugjalda verði lækkaðar þ.a. íslenskir neytendur geti notið svipaðs verðlags á nauðsynjavörum og neytendur í nágrannalöndunum búa við. Það er von okkar að fljótlega komi fram kynslóð stjórnmálamanna sem tekur heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni, hagsmuni heimilanna fram yfir þrönga sérhagsmuni - kynslóð sem lítur á gagnkvæman innflutning og útflutning sem sjálfsagðan hlut. Að fram komi kynslóð stjórnmálamanna sem bíti aldrei höfuðið af skömminni og stæri sig af því opinberlega að brjóta alþjóðasamninga. Kynslóð sem vill öflugan landbúnað en breytt landbúnaðarkerfi þar sem hagsmunir bænda og neytenda fara saman.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×