Skoðun

Öryggis­gæslu í Mjódd, núna, takk fyrir!

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Mér hefur verið tíðrætt um skiptistöðina í Mjódd, meðal annars vegna þess að ástand skiptistöðvarinnar lýsir svo vel áherslum vinstri-meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur um langa hríð – bjástrað er við gæluverkefni en minni áhersla lögð á að veita borgarbúum úrvals grunnþjónustu.

En sei, sei, vertu rólegur Helgi, síðan frá mars á þessu ári hefur verið að störfum stýrihópur um málefni skiptistöðvarinnar í Mjódd!

Sagan rifjuð upp

Svo sem rakið hefur í eldri skrifum mínum um málefni skiptistöðvarinnar í Mjódd hefur Reykjavíkurborg borið ábyrgð á rekstri skiptistöðvarinnar síðan árið 2015 en þá hætti Strætó bs. að koma nálægt rekstri skiptistöðva almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Allar götur síðan 2016 hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram margvíslegar tillögur til að bæta ástandið á þessari stærstu skiptistöð landsins. Þeim tillögum hefur verið mætt af fálæti af vinstri-meirihlutum hvers tíma.

Hvers vegna að stinga niður penna núna?

Ástæða þess að ég sting núna niður penna er að ég fékk í hendur ótvíræð sönnunargögn um eignaspjöll unglinga sem höfðust við í skiptistöðinni að kvöldi til í upphafi þessarar viku. Ungmennin, sem voru allmörg, virðast hafa tekið pókemon vörur ófrjálsri hendi úr sjálfsafgreiðslukassa ásamt því að valda skemmdum á kassanum. Fyrir utan að valda tjóni hefur háttsemi af þessum toga í för með sér að notendur skiptistöðvarinnar upplifi sig ekki örugga. Það sama á við um þá sem sinna verslunarrekstri á skiptistöðinni.

Það er áskorun fyrir þá, sem verða fyrir tjóni vegna svona smáþjófnaðar og eignaspjalla, að eiga í samskiptum við lögreglu. Það er hins vegar ein höfuðskylda borgarinnar að tryggja umgjörð um skiptistöðina þannig að allir sem um hana fara hafi sterka öryggistilfinningu. Þess vegna hefur sú tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins legið lengi fyrir að á skiptistöðinni starfi öryggisvörður allan tímann sem stöðin er opin, eða að slík öryggisgæsla sé að lágmarki viðhöfð þegar búið er að loka verslun stöðvarinnar, það er, á kvöldin. Slík sýnileg öryggisgæsla hefur fælingarmátt, öryggismyndavélar duga ekki einar og sér.

Krafan er einföld

Laga þarf svo margt í umhverfi skiptistöðvarinnar í Mjódd. Sú krafa er hins vegar einföld og auðveldlega framkvæmanleg að bæta öryggisgæslu skiptistöðvarinnar. Til þess þarf ekki stýrihóp frá Reykjavíkurborg. Nær væri að láta verkin tala.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×