Fótbolti

Síðustu 33 mínúturnar í AZ-leiknum verða spilaðar í fyrramálið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Jóhannsson og félagar þeirra í hollenska liðinu AZ Alkmaar verða vakna snemma í fyrramálið því síðustu 33 mínúturnar í leik þeirra í Evrópudeildinni á móti gríska liðinu Atromitos verða spilaðar fyrir hádegi á morgun.

Leikur AZ Alkmaar og Atromitos var flautaður af á 59. mínútu í kvöld eftir að eldur braust út í þaki leikvangsins. Antony Gautier, franskur dómari leiksins, flautaði hann af og leikvangurinn var rýmdur.

UEFA hefur nú ákveðið að þráðurinn verði tekinn upp klukkan 11.00 að staðartíma á morgun en klukkan er þá 9.00 á íslenskum tíma.

AZ Alkmaar vann fyrri leikinn 3-0 í Grikklandi en var bæði marki og manni undir þegar leikurinn var flautaður af í kvöld. Aron Jóhannsson var þá farinn af velli en Jóhann Berg var enn inn á vellinum.

Þeir áhorfendur sem keyptu sér miða á leikinn í kvöld fá frítt inn á morgun en AZ Alkmaar fer áfram svo framarlega sem að Grikkirnir nái ekki að skora tvö mörk á þessum 33 mínútum.

Svo gæti reyndar farið að bæði lið yrðu komin áfram því fyrr um morgunin verður dregið um hvaða félag tekur sæti Fenerbahce í keppninni en FH er eitt 30 félaga sem vonast til að hafa heppnina með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×