Franck Ribéry var í aðalhlutverki í kvöld þegar Bayern München tryggði sér Ofurbikar Evrópu eftir sigur á Chelsea í vítakeppni. Ribéry skoraði annað marka Bayern í leiknum sjálfum og var síðan einn af fimm leikmönnum þýska liðsins sem skoruðu í vítakeppninni.
Javi Martinez tryggði Bayern München vítakeppni með því að jafna í 2-2 með síðustu spyrnu framlengingarinnar og Bayern vann síðan vítakeppnina 5-4.
Þetta var í fyrsta sinn sem Bayern München vinnur ofurbikarinn en þetta er fjórði titill félagsins á árinu því þýska liðið vann Meistaradeildina, þýsku deildina og þýska bikarinn í vor.
Franck Ribéry var kosinn besti knattspyrnumaður Evrópu 2012-13 í gær og var síðan valinn besti leikmaðurinn í leiknum í kvöld. Hann var í miklu stuði í leikslok og skellti sér meira segja upp í stúku þar sem hann söng sigursöngva með stuðningsmönnum Bayern München.
Það er hægt að sjá myndir af því sem og fagnaðarlátum Bæjara með því að skoða myndir frá Getty-myndabankanum hér fyrir ofan.
