Fótbolti

Fótboltaheimurinn minnist Eusébio sem lést í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eusébio.
Eusébio. Mynd/NordicPhotos/Getty
Eusébio, einn af bestu fótboltamönnum allra tíma og stærsta fótboltastjarna Portúgals fyrir komu Cristiano Ronaldo, er látinn 71 árs að aldri. Eusébio fékk hjartaáfall samkvæmt portúgölskum fjölmiðlum.

Eusébio hefur ekki verið heilsuhraustur síðustu árin og var lagður inn á sjúkrahús í Póllandi á meðan Evrópumótinu 2012 stóð.

Eusébio var fæddur í Mósambík þegar landið var portúgölsk nýlenda. Hann spilaði fyrir portúgalska landsliðið og varð markakóngur á HM 1966 þegar Portúgalar komust alla leið í undanúrslitin.

Eusébio skoraði 727 mörk í 715 leikjum fyrir Benfica og varð Evrópumeistari með félaginu árið 1962. Hann var kosinn besti knattspyrnumaður Evrópu árið 1965. Hann skoraði 41 mark í 64 landsleikjum fyrir Portúgal.

Eusébio spilaði á Laugardalsvellinum með Benfica árið 1968 í markalausu jafntefli í Evrópuleik á móti Val en yfir 18 þúsund manns mættu á leikinn og settu áhorfendamet sem stóð í marga áratugi.

Þekktustu menn fótboltaheimsins, bæði leikmenn og aðrir, hafa minnst Eusébio í morgun en þegar hann var upp á sitt besta þá var hann kallaður svarti hlébarðinn (pardusinn). Hér fyrir neðan má sjá þekkta fótboltamenn minnast Eusebio á twitter í morgun.

Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×