Sport

Yngsti Ólympíumeistarinn í 66 ár | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yuzuru Hanyu frá Japan er nýr Ólympíumeistari í listhlaupi karla á skautum en hann tryggði sér gullið í þessari vinsælu grein í kvöld á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi.

Hanyu er aðeins 19 ára gamall og hann er yngsti Ólympíumeistarinn í listhlaupi karla á skautum í 66 ár eða síðan að Bandaríkjamaðurinn Dick Button vann gullið 18 ára gamall á ÓL í Sankt Moritz 1948.

Yuzuru Hanyu lagði grunninn að sigrinum með stórkostlegri frammistöðu í gær. Hann bætti þá sitt eigið heimsmet með því að fá 101.45 í einkunn fyrir stutta prógrammið en enginn hefur áður fengið yfir hundrað í einkunni fyrir slíka æfingu á Ólympíuleikum.

Yuzuru Hanyu tókst ekki alveg eins frábærlega upp í kvöld og datt meðal annars tvisvar í frjálsu æfingunni. Hanyu var samt með frábærar æfingar fyrir og svo fór að enginn gerði betur en hann í seinni hlutanum. Japaninn ungi endaði með einkunn upp á 178.64.

Hanyu fékk samtals 280.09 stig eða 4,47 stigum meira en næsti maður. Kanadamaðurinn Patrick Chan var þó ekki langt frá honum í æfingunum í dag en hann fékk 178.10 og tryggði sér silfrið með samtals stig upp á 275.62.

Denis Ten frá Kasakstan vann bronsið en hann var þó yfir tuttugu stigum á eftir silfurmanninum frá Kanada.

Það má sjá myndband með nýja Ólympíumeistaranum hér fyrir ofan.

Yuzuru Hanyu.
Yuzuru Hanyu.
Yuzuru Hanyu.
Yuzuru Hanyu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×