Sport

Massa verður með stafi Schumachers á hjálminum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Felipe Massa biður fyrir vini sínum.
Felipe Massa biður fyrir vini sínum. Vísir/getty

Brasilíumaðurinn Felipe Massa, ökuþór Williams í Formúlu 1, verður með stafina „MS“ áletraða á hjálminum þegar fyrsta keppni tímabilsins fer fram í Ástralíu á sunnudaginn.



Stafirnir standa vitaskuld fyrir MichaelSchumacher sem liggur í dái á spítala í Frakklandi eftir hræðilegt skíðaslys eins og allir vita.



Massa var samherji Schumachers hjá Ferrari en Þjóðverjinn er sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og einn sá albesti sem nokkurn tíma hefur keppt í Formúlunni.



„Michael er alltaf með mér. Vertu sterkur, bróðir. Ást,“ skrifaði Massa á Twitter-síðu sína en hann ræddi svo málið enn frekar við blaðamenn í gær.



„Ég hugsa um Schumacher á hverjum degi og bið fyrir honum. Ég vona svo sannarlega að það verði í lagi með hann. Það er synd hvað kom fyrir en ég held áfram að hugsa til hans,“ sagði Felipe Massa.



„Hann verður á hjálminum mínum og ég held áfram að biðja fyrir honum,“ bætti hann við.



Formúlan verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en útsending frá tímatökunum hefst klukkan 5:50 á laugardagsmorgun. Keppnin sjálf er svo á dagskrá klukkan 5:30 á sunnudagsmorgun.

Hjálmurinn hans Massa.Mynd/Instagram



Fleiri fréttir

Sjá meira


×