Körfubolti

Sjö ár síðan að Njarðvík vann þrjá í röð í sömu úrslitakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Vísir/Daníel
Njarðvíkingar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta í fyrrakvöld með þriðja sigrinum í röð á móti Haukum. Þetta var fyrsta serían sem Njarðvíkurliðið vinnur í úrslitakeppni síðan 2010.

Það þarf að fara enn lengra aftur til að finna þrjá sigurleiki í röð hjá Njarðvík í einni úrslitakeppni en það gerðist síðast í mars 2007. Njarðvík vann þá 2-0 sigur á Hamar/Selfoss í átta liða úrslitunum og svo fyrsta leikinn á móti Grindavík í undanúrslitunum.

Einar Árni Jóhannsson var þjálfari Njarðvíkurliðsins þá alveg eins og nú en liðið fór þá alla leið í lokaúrslitin þar sem liðið tapaði í fjórum leikjum á móti KR. 

Það er bara einn leikmaður sem hefur tekið þátt í öllum leikjunum þremur í þessum tveimur sigurgöngum og það er Hjörtur Hrafn Einarsson. Egill Jónasson var með í tveimur fyrstu leikjunum á móti Haukum en missti af þriðja leiknum.

Njarðvíkingar þurfa að bíða eftir því að fá að vita hvaða lið verður mótherji liðsins í undanúrslitunum en það verður annaðhvort Grindavík eða Þór. Fjórði leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á morgun en staðan er 2-1 fyrir Grindavík sem þarf bara einn sigur til viðbótar.

Njarðvík og undanfarnar úrslitakeppnir:

2014 - Komið í undanúrslit eftir 3-0 sigur í einvígi við Hauka

2013 - 1-2 tap fyrir Snæfelli í  í 8 liða úrslitum

2012 - 0-2 tap fyrir Grindavík í 8 liða úrslitum

2011 - 0-2 tap fyrir KR í 8 liða úrslitum

2010 - 1-3 tap fyrir Keflavík í undanúrslitunum

2009 - 0-2 tap fyrir Keflavík í 8 liða úrslitum

2008 - 0-2 tap fyrir Snæfelli í  í 8 liða úrslitum

2007 - 1-3 tap fyrir KR í lokaúrslitum

2006 - Íslandsmeistari




Fleiri fréttir

Sjá meira


×