Handbolti

Formaður HSÍ: Fengum ekki fullnægjandi svör

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson lengst til vinstri.
Guðmundur B. Ólafsson lengst til vinstri. vísir/daníel
„Það kom svar frá EHF, en það er innihaldslítið,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, í samtali við Vísi í dag.

Formaðurinn hafði samband við evrópska handknattleikssambandið, EHF, í gær eftir að ljóst var að Þýskaland fékk svokallað „wild card“-sæti á HM 2015 í Katar, en Íslendingar telja sig eiga heimtu á því fyrst Ástralía fékk ekki keppnisleyfi.

Hann vildi að EHF krefðist svara hjá Alþjóðahandknattleikssambandinu, IHF, hvers vegna ekki var farið eftir tilmælum evrópska sambandsins sem listaði Ísland upp sem fyrstu varaþjóð á HM.

„Við fengum svör sem við teljum ekki nægilega fullnægjandi. Við höldum áfram að leita eftir svörum og munum beina spjótum okkar að IHF,“ sagði Guðmundur.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í dag er ómögulegt að ná í nokkurn mann hjá IHF til að fá svör. Nánast allt starfsliðið er í Zagreb á fundi sambandsins, ekki eru gefnir upp farsímar á starfsmennina og enginn svarar póstum.

Guðmundur upplifði það sama í morgun, sagði hann við blaðamann Vísis, þegar hann reyndi að hafa samband við IHF.

„EHF vísar bara á IHF og segir þetta ákvörðun sem sé tekin þar. Þetta snerti ekki EHF beint og við eigum að beina sjónum okkar þangað. Það munum við gera,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson.


Tengdar fréttir

Íþróttaljós: Reglugerðin sem enginn vissi af

Alþjóðahandknattleikssambandið breytti reglunum um hvaða þjóð kæmi til vara ef einhver skyldi ekki fá keppnisleyfi, en lét engan vita. Framkvæmdastjóri evrópska sambandsins lætur ritarann svara spurningum fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×