Innlent

Tvísýn staða Hönnu Birnu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Skiptar skoðanir eru um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þingmaður flokksins segir að staða Hönnu Birnu sé mjög veik. Prófessor í sagnfræði segir að Hanna Birna þurfi á stuðningi formanns flokksins að halda.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ítrekaði í gær á Sprengisandi á Bylgjunni að hún hafi ekki brotið af sér í tengslum við lekamálið svok kalla. Hún hafi ekki vitneskju um hver lak upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos til fjölmiðla fyrr á þessu ári.

Hafa verulega áhyggjur

Fréttastofa hafði samband við nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins í dag og eru skiptar skoðanir um stöðu Hönnu Birnu í embætti ráðherra. Einn þeirra segir að staða Hönnu Birnu sé mjög veik. Hún hafi enn ekki gert hreint fyrir sínum dyrum í lekamálinu og veltir þingmaðurinn því fyrir sér hvort farsælast hefði verið ef innanríkisráðherra hefði farið í tímabundið leyfi úr ráðherrastól á meðan lögreglurannsókn á málinu færi fram. Þingmaðurinn segir að fleiri innan þingflokksins séu á sömu skoðunar og hafi verulegar áhyggjur af stöðu mála.

Aðrir þingmenn sem rætt var við í dag segjast styðja Hönnu Birnu og ætla að bíða þeirrar niðurstöðu sem rannsókn lögreglu skilar. Einn þingmaður kvaðst ennfremur vera ósáttur með þann tíma sem rannsókn málsins hefði tekið.

Þarf stuðning frá formanni

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir stöðu Hönnu Birnu tvísýna. Hún þurfi stuðning frá Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins.

„Ef að það er kominn einhver óróleiki innan þingflokksins þá er það formannsins að stýra skútunni. Ef hann tekur einharða afstöðu með, líkt og Hanna Birna sjálf hefur sagt, að henni beri ekki að víkja þá styrkir það hennar stöðu mjög. Ef hann gerir það ekki þá er staða hennar mjög veik,“ segir Guðmundur.

Hann telur að Hanna Birna hafi vanmetið umfang málsins. „Það er augljóst að bæði sá sem að lak þessu skjali og ráðherra sjálfur, sem taldi málið ekki það alvarlegt að það þyrfti að grípa til harðra aðgerða innan ráðuneytisins, vanmat stöðuna,“ segir Guðmundur.


Tengdar fréttir

Píratar vilja fund um lekamálið

Þingmaður Pírata hefur óskað eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti svara við því hvort ráðherra hafi haft óeðlileg afskipti af störfum lögreglunnar.

„Protected by a silver spoon…“

Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri, er klár maður eins og hann hefur sannað í Útsvari. Líklega hefur honum þó aldrei tekist betur upp en með birtingu Bítlalagsins Bathroom Window á Twitter í vikunni.

Íhuga að leggja fram vantrauststillögu á Hönnu Birnu

Þingmenn stjórnarandstöðunnar íhuga að leggja fram vantrauststillögu á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra þegar þing kemur saman í haust. Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir svörum frá ráðherra varðandi meint afskipti hennar af rannsókn lögreglu á lekamálinu.

Hanna svarar í dag

Innanríkisráðherra veitir umboðsmanni Alþingis upplýsingar um meint afskipti af rannsókn Lekamálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×