Innlent

Heilaskurðlæknir um áhrif kannabisolíu: „Það er sama hvaðan gott kemur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í gær fjallaði fréttaskýringaþátturinn Brestir um mögulegan lækningamátt kannabis við krabbameini. Rætt var við Ásgeir Daða Rúnarsson sem hefur sjálfur nýtt sér kannabis í baráttu sinni við krabbamein.

Ásgeir hefur hjálpað krabbameinssjúklingum með að nota kannabis og í þættinum var fylgst með þar sem hann bjó til olíu handa Sigurði Jóni Súddasyni sem greindist með heilaæxli í fyrra. Hann notar kannabis í þeirri von um að læknast af krabbameininu.

Sigurður er sá eini af þeim 20 sjúklingum sem Ásgeir hefur aðstoðað sem hafa tekið kannabiskúrinn alla leið. Í sumar tók hann stóran kúr, byggði sig upp á 10 dögum. Við tóku svo 40 dagar á fullum skammti og svo trappaði hann sig niður á 10 dögum.

Lóa Pind Aldísardóttir, einn af umsjónarmönnum Bresta, fylgdi Sigurði á Landsspítalann en framundan var viðtal við heilaskurðlæknir sem hafði fylgt honum í gegnum ferlið.

Saman skoðuðu þeir myndir af æxlinu og að sögn Elfar Úlfarssonar, hafði æxlið ekki stækkað og blaðra sem er staðsett nálægt því hafði jafnvel minnkað.

„Mér finnst mjög jákvætt að blaðra sem var alltaf að þenja sig og fyllast sé ekki að gera það núna,“ sagði Elfar við Sigurð þegar hann kom í heimsókn ásamt móður sinni.

„Ég er á spes matarræði og er að taka kannabisolíu,“ sagði Sigurður við Elfar í viðtalinu. Þá svaraði Elfar; „Það er sama hvaðan gott kemur. Svo lengi sem það er ekki verið að peningaplokka mann.“


Tengdar fréttir

Vill að yfirvöld taki kannabis til skoðunar

Kristín Ingólfsdóttir, lyfjafræðiprófessor og rektor Háskóla Íslands, telur að heilbrigðisyfirvöld eigi að skoða í fullri alvöru að leyfa kannabis í lækningaskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×