Innlent

Bjarni: Ekki úrslitaatriði að eftirmaður Hönnu Birnu sé kona

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Bendiktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segist leggja á það áherslu að finna sem allra fyrst eftirmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem innanríkisráðherra. Einar K. Guðfinnsson hefur verið sterklega orðaður við embættið.

Rætt var við Bjarna í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann lýsti fyrstu viðbrögðum sínum við ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að segja af sér embætti.

„Við höfum fundað út af þessu máli margoft á fundanförnum vikum og mánuðum. Þetta á sinn hátt kom mér á óvart að hún væri komin að þessari niðurstöðu en hún færir fyrir henni gild rök. Það er orðið erfitt fyrir hana að sinna því verkefni sem hún hefur tekið að sér í innanríkisráðuneytinu og ég hef á því skilning og ég ber virðingu fyrir hennar niðurstöðu,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að ekki væri búið að velja eftirmann ráðherrans. „Ég legg áherslu á að við gerum það mjög hratt. Við munum ræða það í þingflokknum á næstu dögum og ég hef rætt um það við forsætisráðherra að ég telji mikilvægt að við ljúkum því sem allra fyrst.“

Samkvæmt okkar heimildum koma Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Einar Kristinn Guðfinnsson helst til greina sem eftirmenn hennar. Er eitthvað hæft í því?

„Það er ekkert um þetta að segja á þessum tímapunkti. Það koma mjög margir til greina ef út í það er farið. Aðalatriðið er að það hefur engin ákvörðun verið tekin og þetta er á algjöru frumstigi.“

Leggurðu áherslu á að kona leysi hana af hólmi?

„Það er auðvitað eitt af því sem mér finnst eðlilegt að við horfum til en það er ekki úrslitaatriði í mínum huga.“

Hver er staða hennar sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins eftir allt sem á undan er gengið? 

„Ef eitthvað er mun þessi ákvörðun hennar gera henni betur kleift að sinna flokksstarfinu og þeim verkefnum sem fylgja varaformannsembættinu. Hún kemur síðan inn á þingið og verður augljóslega lykilþingmaður fyrir okkur sjálfstæðismenn. Þingið er miðjan í því sem við erum að gera og hún verður áfram í lykilstöðu fyrir okkur sjálfstæðismenn,“ sagði Bjarni Benediktsson. 


Tengdar fréttir

Hanna Birna hættir

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×