Handbolti

Aron Pálmarsson: Nenni ekki á HM sem þriðja eða fjórða varaþjóð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson og strákarnir okkar í íslenska landsliðinu verða tæplega í Katar eftir tap gegn Bosníu í sumar.
Aron Pálmarsson og strákarnir okkar í íslenska landsliðinu verða tæplega í Katar eftir tap gegn Bosníu í sumar. vísir/stefán
Aron Pálmarsson, leikmaður Þýskalandsmeistara Kiel og íslenska landsliðsins í handbolta, meiddist enn á ný þegar hann sneri aftur í lið Kiel í Íslendingaslag gegn Erlangen í síðustu viku.

Þar tóku meiðsli læri sig aftur upp og verður hann ekki með gegn PSG í Meistaradeildinni um helgina.

„Ég fór bara of snemma af stað því það kom í ljós að þetta var ekki gróið. Það er alltaf gott að vera vitur eftir á en ég átti auðvitað ekki að spila leikinn á móti Erlangen,“ segir Aron í viðtali við Guðmund Hilmarsson í Morgunblaðinu í dag.

Aron vonast til að komast aftur á skrið í næstu viku og vera með í öðrum Meistaradeildarleik gegn króatíska liðinu Zagreb.

Í viðtalinu er Aron einnig spurður út í farsann í kringum HM í handbolta, en Alþjóða handknattleikssambandið býður upp á nýjan kafla í þeim skrípaleik reglulega.

„Ég held að ég viti minna en þið fréttamenn. Ég les bara það sem ég sé í blöðunum og á netinu. Þetta er orðið afar vandræðalegt og ég nenni ekki einu sinni að hugsa um það hvort við séum að fara til Katar eða ekki. Lönd sem voru hætt við vilja nú komast inn aftur og þetta er hrein vitleysa,“ segir Aron sem hefur ekki lengur áhuga á að fara til Katar.

„Ég nenni ekki að fara inn á mótið sem einhver þriðja eða fjórða varaþjóð. Við skitum á okkur í sumar og við verðum bara að blæða fyrir það,“ segir Aron Pálmarsson.


Tengdar fréttir

Barein og Furstadæmin biðja IHF um að fá að vera aftur með

Barein og Sameinuðu arabísku Furstadæmin hafa nú óskað eftir því formlega við Alþjóðahandboltasambandið að fá aftur sæti sín á HM í handbolta í Katar. Veik von Íslands um að fá að vera með á heimsmeistaramótinu er því væntanlega úr sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×