Handbolti

Enn og aftur tapaði Phildelphia | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/AP
Philadelphia tapaði enn einum leiknum í NBA-deildinni í nótt er liðið mætti meisturum San Antonio Spurs á heimavelli. San Antonio vann sex stiga sigur, 109-103.

Þar með hefur Philadelphia tapað öllum sautján leikjum sínum á tímabilinu en félagið hefur aldrei byrjað verr í deildinni. Þrjú lið hafa byrjað með sautján töpum í röð í sögunni og aðeins eitt fyrstu átján.

Philadelphia getur því jafnað deildarmetið ef liðið tapar fyrir Oklahoma City á heimavelli á föstudagskvöldið.

Hvorki Tim Duncan né Tony Parker spiluðu með San Antonio í nótt en þrátt fyrir það lenti liðið ekki í teljandi vandræðum með andstæðinga sína. Aaron Baynes skoraði fimmtán stig fyrir liðið og þeir Manu Ginobili og Cory Joseph fjórtán hvor.

Michael Carter-Williams skoraði 24 stig fyrir heimamenn og tók þar að auki fjórtán fráköst. Tony Wroten missti þó af leiknum vegna hnémeiðsla.

LA Clippers vann Minnesota, 127-101, þar sem Blake Griffin og JJ Redick skoruðu 23 stig hvor áður en þeir fengu að hvíla í fjórða leikhluta.

Clippers lauk þar með við langa útileikjahrinu en liðið vann sex af sjö leikjunum í hrinunni sem er besti árangur í sögu félagsins.

Shabazz Muhammed skoraði átján stig og tók tíu fráköst fyrir Minnesota og nýliðinn Andrew Wiggins fjórtán stig - öll í fyrri hálfleik.

Denver vann Utah, 103-101, sem tapaði þar með sínum sjötta leik í röð. Ty Lawson skoraði fimmtán stig og mikilvæga körfu á lokamínútu leiksins sem gerði út um leikinn fyrir Denver.

Úrslit næturinnar:

Philadelphia - San Antonio 103-109

Washington - Miami 107-86

Utah - Denver 101-103

LA Clippers - Minnesota 127-101

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×