Skoðun

Er mjólkurverð til bænda 20% of hátt?

Þórólfur Matthíasson skrifar
Bændur í ESB fá greiddar að meðaltali 65 krónur á lítra af mjólk sem tappað er á mjólkurbíl heima á búi. Bændur sem búa við erfiðar aðstæður fá hærra verð, finnskir bændur fá 75 krónur á lítrann, bændur á Kýpur fá 94 krónur á lítrann (sjá heimasíðu DairyCo í Bretlandi, dairyco.org.uk). Verð sem verðlagsnefnd búvara ákvarðar íslenskum bændum er 83 krónur á lítrann. Þetta verð er lægra en verðið sem kýpverskir bændur fá, 10% hærra en verðið sem finnskir bændur fá og um 30% hærra en meðalverðið í ESB. Íslenskir mjólkurbændur fá svo verulega hærri peningastyrki en kollegar þeirra á meginlandinu.

Of hátt skilaverð?

Skilaverð til bænda er ákvarðað af opinberri nefnd, verðlagsnefnd búvara. Svo virðist sem sú nefnd fylgist ekki vel með skýrsluhaldi bænda því verðlagsgrundvöllur hennar gengur út frá því að svokölluð árskýr mjólki 4.700 lítra á ári en skv. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins mjólkar árskýrin nú 5.600 lítra eða sem svarar 20% meira en verðlagsnefnd búvara gerir ráð fyrir! Væru framleiðslutölurnar leiðréttar myndi verð til bænda lækka niður í 67 krónur sem er meðalskilaverð í Evrópusambandinu! Því má segja að verðlagsnefnd búvara sjái nú til þess að halda lífi í óhagkvæmum og úreltum mjólkurbýlum.

Of margar vinnustundir

Í skjóli ofurtolla hafa úrvinnslustöðvar landbúnaðarins einkasölustöðu á úrvinnsluvörum mjólkur. Framþróun í mjólkuriðnaði hefur verið hröð undangengna áratugi. Svo hröð að brúttóálagning í töppun mjólkur á neyslufernur hefur lækkað um heil 20% á nokkrum árum í Bretlandi. Lækkandi framleiðslukostnaður erlendis byggist að miklu leyti á að mjólkurbúin eru að nýta sér hagkvæmni stórrekstrar.

Stefna íslenskra afurðastöðva hefur verið að reyna að framleiða allan kúamjólkurost sem Íslendingar neyta úr innlendri mjólk. Þessi stefna þýðir að afurðastöðvarnar hafa ákveðið að nýta ekki mögulegan ávinning stórrekstrar í framleiðslu osta. Sem þýðir aftur að hvert kíló af íslenskum kúamjólkurosti inniheldur hlutfallslega meira og meira af vinnustundum en hvert kíló af sams konar osti framleiddum á Írlandi, Bretlandi eða meginlandi Evrópu.

Allt of hátt verð til bænda

Bændur og samtök þeirra hafa markað þá stefnu að taka ekki þátt í alþjóðlegri verkaskiptingu við úrvinnslu mjólkurvara. Fyrir bragðið tekur enginn eftir því að verðlagsgrundvöllur verðlagsnefndar búvara er skakkur. Fyrir bragðið sitja bændur með dýrt, úrelt og óhagkvæmt vinnslukerfi. Til skamms tíma, í krafti ofurtolla, er hægt að velta kostnaði af dýrum og úreltum vinnslukerfum yfir á neytendur. Til lengri tíma litið munu neytendur sniðganga það sem dýrt er og auka neyslu sína af því sem ódýrara er. Núverandi stefna bænda gagnvart innflutningi mjólkurafurða kann því að koma þeim í koll síðar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×