Innlent

Vatnalíf ætti ekki að skaðast

Svavar Hávarðsson skrifar
Fjarlægðir, vindátt og magn gosefna ráða mestu um skaða vegna eldgosa.
Fjarlægðir, vindátt og magn gosefna ráða mestu um skaða vegna eldgosa. fréttablaðið/vilhelm
Ekki eru miklar líkur á því að vatnalíf og fiskur skaðist vegna mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni, er mat Veiðimálastofnunar með þeim fyrirvara að í eldgosum hefur skaði hlotist af eldgosum. Fjarlægðir, ríkjandi vindáttir og magn gosefna frá eldstöðinni ráða hér mestu um.

Vatnalíf skaðast af efnum frá gosösku sem losnar með úrkomu og fer í vötn. Þá getur aska sem fer í ár og vötn fyllt búsvæði vatnalífvera og valdið dauða. Þá eru ótalin flóð sem verða í ám vegna eldgosa undir jökli.

Talsverður skaði varð vegna þessa í eldgosinu í Eyjafjallajökli og svo í Grímsvatnagosinu árið 2011. Askan frá Eyjafjallajökli var súr og olli súrnun í ám undir Eyjafjöllum en askan frá Grímsvötnum var basísk. Þá eru þekkt dæmi um dauða fiska vegna efnamengunar í öskufalli frá Heklu, til dæmis á húnvetnsku heiðunum bæði 1970 og 1980.

Veiðimálastofnun bendir á að loftborin brennisteinsmengun í miklu magni eða í langan tíma getur valdið skaða í vatni. Sá skaði er fyrst og fremst fólginn í að sýrustig lækkar og vatnið verður súrara. Á móti kemur að íslenskt vatn er yfirleitt basískt og þarf því meira til að slíkt vatn verði súrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×