Handbolti

EB: Nútíma þrælar byggja handboltahallirnar á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Verkamennirnir vinna við hættulegar aðstæður og sofa í gámum í eyðimörkinni.
Verkamennirnir vinna við hættulegar aðstæður og sofa í gámum í eyðimörkinni. myndir/jan poulsen/extra bladet
Mikið hefur verið fjallað um nútíma þrælahald í Katar undanfarin misseri í tengslum við heimsmeistarakeppnina í fótbolta sem haldin verður í landinu árið 2022.

Verkamenn eru fluttir inn frá Indlandi, Sri Lanka og Nepal þar sem þeir þræla sér út á daginn við að byggja velli og heilu hverfin fyrir mótið sem hefst eftir sjö ár.

Aðstæður þeirra eru ömurlegar og dauðsföllin tíð. Talið var að 1.400 innfluttir verkamenn væru dánir í október á síðasta ári, en danski blaðamaðurinn Jan Jensen á Extra Bladet komst að því að sú tala hefur hækkað verulega.

Heimsmeistarakeppnin í handbolta hefst á morgun og ætlar Jensen að skína ljósi á dökku hliðar mótsins. Lesa má fyrstu umfjöllun hans í heildinni hér á vef EB.

Innfluttir verkamenn voru einnig látnir byggja handboltahallirnar glæsilegu sem notaðar verða á HM, en á myndinni hér að ofan má sjá nokkra þeirra leggja lokahönd á höllina í Lusail þar sem Danir mæta Argentínumönnum í fyrsta leik á föstudaginn.

Vinnuaðstæður mannanna eru ömurlegar, segir Jensen, og deyr verkamaður annan hvern dag. Hann slóst í för með einum vinnuhópi og sá með eigin augum hvernig þeir vinna og lifa við skelfilegar aðstæður í Doha.

Hópurinn sem Jensen fylgdi er frá Nepal og býr í lítilli byggingu ásamt 115 öðrum verkamönnum. Þeir sofa átta saman í herbergi og allir 115 þurfa að deila litlu eldhúsi og tveimur sturtum.

Jensen segist í niðurlagi fréttarinnar ætla að halda áfram að fjalla um skuggahliðar mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×