Handbolti

Verður Gunnar Steinn leynivopn Íslands gegn Guðmundi?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Gunnar Steinn Jónsson átti góða innkomu í lið Íslands fyrir leikinn gegn Egyptalandi í gær. Hann skoraði þrjú mörk í fjarveru Arons Pálmarssnoar en Gunnar Steinn var kallaður inn í hópinn vegna höfuðmeiðsla Arons.

„Það var gott að fá að vera þátttakandi á þessu móti enda hefur það verið skrýtið að standa fyrir utan hópinn og horfa á,“ sagði Gunnar Steinn en viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég held að ég hafi náð að hjálpa liðinu í þessum leik og var ég ánægðastur með það. Ég á heldur ekki mörg stórmót að baki og var gott að þurfa ekki að taka eitt í forsetabikarnum,“ bætti hann við en ef Ísland hefði tapað í gær hefði það farið í úrslitakeppni átta neðstu liða mótsins sem nefnist forsetabikarinn.

Hann segir að það hafi skipt miklu máli að menn mættu vel stemmdir til leiks gegn Egyptalandi í gær.

„Það var ekkert inni í myndinni að tapa honum. Það munar miklu á gæðum leiksins ef maður er fimm prósentum tilbúnari þá gengur allt mun betur.“

Hann segist ekki hafa velt því fyrir sér hvort að Egyptaland, sem var þegar búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum hafi mætt afslappaðra til leiks en í öðrum leikjum sínum.

„Það var minna undir fyrir þá og ekki eins mikilvægt fyrir þá að vinna og okkur. Fyrir okkur var þetta leikur upp á líf og dauða,“ sagði Gunnar Steinn en strákarnir mæta Danmörku í 16-liða úrslitunum á morgun.

„Við eigum séns í öll lið á góðum degi þó svo að Danir þykja sigurstranglegri og kannski með pressuna á sér. Við unnum þá í undirbúningnum okkar fyrir mótið og getum alveg unnið þá aftur nú.“

Gunnar Steinn er eini leikmaðurinn í íslenska landsliðshópnum sem ekki á landsleik undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar.

„Hann valdi mig aldrei. Ég held að maður verði að stefn á að sýna honum af hverju hann missti,“ sagði hann og brosti. „Hann kannski veit þá minna um mig. Ég get þá verið leynivopnið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×