Handbolti

Þjóðverjar með öruggt sæti í undankeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson og félagar fagna.
Dagur Sigurðsson og félagar fagna. Vísir/Eva Björk
Þýskaland hafnaði í sjöunda sæti á HM í handbolta og tryggði sér þar með öruggan þátttökurétt í undankeppni ÓL 2016. Það varð ljóst eftir sigur Þjóðverja á Slóveníu í dag, 30-27.

Sjöunda sætið var í húfi í dag en liðin í 2.-7. sæti HM fá sæti í undankeppni næstu Ólympíuleika. Ef að Katar, sem keppir til úrslita á mótinu á morgun, verður Asíumeistari á næsta ári fær liðið í áttunda sæti einnig sæti í undankeppninni.

Það eru því ágætar líkur á því að Slóvenía fái einnig tækifæri til að koma sér til Ríó á næsta ári en engu að síður var það góð tilfinning fyrir Dag Sigurðsson að klára mótið með sigri og halda heim á leið með þetta langþráða sæti í undankeppni Ólympíuleikanna.

Þýskaland missti af Ólympíuleikunum 2012 í London og þar á bæ þrá menn fátt meira en að verða aftur á meðal þátttökuþjóða í handboltakeppni leikanna.

Dagur endurheimti skyttuna Steffen Weinhold úr meiðslum en sóknarleikur liðsins leið mjög fyrir fjarveru hans í leiknum gegn Króatíu í gær. Eftir þunga byrjun náðu Þjóðverjar að þétta varnarleikinn um miðjan fyrri hálfleik og taka þar með frumkvæðið í leiknum.

Silvio Heinevetter kom þá einnig inn fyrir Carsten Lichtlein, sem varði aðeins eitt af sjö skotum sínum á upphafsmínútum leiksins, og sá fyrrnefndi átti góðan leik.

Enginn var þó betri en fyrirliðinn og hornamaðurinn Uwe Gensheimer sem skoraði þrettán mörk í dag og var magnaður. Þjóðverjar fóru langt á góðum varnaleik og markvörslu í dag og uppskáru fyrir það dýrmæt mörk úr hraðaupphlaupum.

Staðan var orðin 27-21 um miðjan síðari hálfleikinn og þrátt fyrir áhlaup Slóvenanna þá héldu þeir þýsku dampi og lönduðu öruggum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×