Handbolti

Hermönnum úthlutað sætum eiginkvenna leikmanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Heimamenn fylltu höllina á miðvikudag - sama hvað það kostaði.
Heimamenn fylltu höllina á miðvikudag - sama hvað það kostaði. Vísir/Eva Björk
Ótrúleg uppákoma átti sér stað fyrir leik Þýskalands og Katar í 8-liða úrslitum HM í handbolta í fyrradag. Eiginkonur og kærustur leikmanna nokkurra leikmanna þýska landsliðsins komust ekki á leikinn þrátt fyrir að vera með gildan miða.

Þegar þær fóru að þeim inngangi sem miðinn þeirra veitti aðgang að komu þær að luktum dyrum, eftir því sem fram hefur komið í þýskum fjölmiðlum.

Við tók mikið spretthlaup en þær fengu hvergi að komast inn í höllina né heldur svör við sínum spurningum. „Það talaði enginn ensku. Við vorum auðvitað brjálaðar og hlupum út um allt í leit að svörum. Það átti meira að segja að vísa okkur úr höllinni,“ sagði Jenny Kempf, kærasta hornamannsins Patrick Grötzki.

„Sem betur fer kom maður okkur til hjálpar og hann leiddi okkur inn í gegnum VIP-svæðið. Hann sagði okkur bara að hafa hljóð og ganga á eftir sér,“ sagði Isabel Kraus, eiginkona Mimi Kraus.

Það gekk eftir og þýsku konurnar komu sér niður að því hólfi þar sem þýskir stuðningsmenn sátu. Leikurinn var þegar byrjaður og þær urðu að sitja á tröppunum í ganginum.

Sandra Laukemann, kærasta fyrirliðans Uwe Gensheimer, segir að þær hafi aldrei fengið að sitja í þeim sætum sem þær áttu að sitja í. „Við fengum síðar að vita að allt það hólf var tekið frá fyrir katarska hermenn,“ sagði hún.

Leikmenn þýska landsliðsins fengu ekki að vita af þessu fyrr en eftir á en einnig hefur verið haldið fram að um 50 stuðningsmenn Þýskaland hafi lent í samskonar vandræðum.


Tengdar fréttir

Dagur: Við erum betri en Katar

Dagur Sigurðsson vildi ekkert ræða dómgæsluna og sagði Þjóðverja hafa klúðrað þessu sjálfir í gær.

Gensheimer: Klúðruðum góðu tækifæri

Uwe Gensheimer var daufur í dálkinn eftir tapið gegn Katar. Hann var markahæstur í þýska liðinu, skoraði 5 mörk úr 7 tilraunum. Goran Stojanovic varði 2 vítaköst hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×