Handbolti

Ólafur tekur fram skóna og hjálpar Aroni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. vísir/vilhelm
Ólafur Stefánsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands í handbolta, tekur skóna úr hillunni frægu og æfir með danska meistaraliðinu KIF Kolding Kaupmannahöfn næstu daga.

Aron Kristjánsson, þjálfari KIF Kolding og landsliðsþjálfari Íslands, fékk Ólaf, sem er 41 árs, til að hjálpa sér því hann er í vandræðum með hægri skyttustöðuna. Sænski landsliðsmaðurinn Kim Andersson er meiddur.

„Ég ætla að æfa með þeim og svo sjáum við til hvort ég geti hjálpað til. Ég ætla aðeins að sprikla og sjá hvernig ég er,“ segir Ólafur Stefánsson við Vísi, en það var danska blaðið Politiken sem greindi fyrst frá þessu.

„Það er smá rými hjá mér í verkefninu mínu þannig ég get skipt um umhverfi í smá tíma. Kannski æfi ég bara í eina viku og fer svo heim en kannski kýli ég á þetta,“ segir Ólafur.

Ólafur mun þó ekki klára tímabilið með danska liðinu heldur er stefnan aðeins að spila með því gegn króatíska liðinu Zagreb í 16 lða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Þetta eru félagar og þeir eru í smá vandræðum þannig ég ætla sjá til hvort ég get hjálpað þeim,“ segir Ólafur Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×