Handbolti

Aron hættir með Kolding

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron svekktur eftir leik Kolding í Meistaradeildinni um síðustu helgi.
Aron svekktur eftir leik Kolding í Meistaradeildinni um síðustu helgi. vísir/daníel
Landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson er að hætta með danska meistaraliðið Kolding og verður tilkynnt um þessar breytingar hjá félaginu síðar í dag.

Þetta hefur Vísir samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Aron mun láta af þjálfun hjá félaginu eftir að tímabilinu lýkur. Ýmsar ástæður eru fyrir því að Aron er að hætta hjá félaginu. Til að mynda fjárhagsstaða félagsins sem er ekki nógu góð um þessar mundir.

Svo spila fjölskylduástæður einnig inn í. Aron hefur búið einn í Danmörku fjarri fjölskyldu sinni en hann ætlar nú að flytja aftur heim til Íslands að því er heimildir Vísis herma.

Nú er spurning hvað tekur við hjá þjálfaranum. Samningur hans við HSÍ rennur út í sumar og óvíst hvort hann haldi áfram sem landsliðsþjálfari. Þjálfarastaðan hjá hans gamla félagi, Haukum, er að losna þar sem Patrekur Jóhannesson er að hætta með liðið en samkvæmt heimildum Vísis hafa engar viðræður átt sér stað á milli Arons og Hauka.

Það má aftur á móti telja líklegt að Haukar tali við Aron síðar fari svo að HSÍ framlengi ekki samningi hans við félagið.

Aron hefur náð gríðarlega góðum árangri með danska liðið og gerði það til að mynda að Danmerkurmeisturum á síðustu leiktíð. Hann kom liðinu í 16-liða úrslit í Meistaradeildinni en þar féll liðið úr leik gegn Zagreb um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×